Gamaldags og góð skinkuhorn

Jæja, komin aftur eftir smá sumarfrí í ágúst - mæli eindregið með því að taka smá viðbótarfrí í ágúst, það er eitthvað alveg hreint ótrúlega slakandi við það :-)

Ég tók þátt í að gæsa vinkonu mína um helgina og sá þar auðvitað frábært tækifæri til að prófa nokkrar uppskriftir sem ég hafði verið að skoða í fríinu. Alls urðu þetta þrjár uppskriftir og ætla ég að birta þær allar í þessari viku. Sú fyrsta er þessi hér í þessari færslu - gamaldags og góð skinkuhorn.

Það er eitthvað sem er alltaf jafn gott við skinkuhorn - þ.e. ef manni finnst skinka á annað borð góð :-)  Mér finnst best að setja vel af smurostinum og slatta af skinku á hverja - en þó ekki svo að það verði vandræðalegt að rúlla þeim upp. Ég hef verið að prófa nokkrar mismunandi deig tegundir en held ég hafi núna dottið niður á eina sem er virkilega góð.

Uppskriftin var eftirfarandi ... úr urðu um 60 skinkuhorn
Deigið
1 egg
3/4 dl volgt vatn
2 1/4 tsk þurrger
9 dl hveiti
3/4 dl + 1/4 tsk sykur
1 1/2 tsk salt
5 msk smjör
2 1/2 dl mjólk

Fylling
Beikonsmurostur
Skinka

Byrjaði á að blanda saman vatninu, þurrgerinu og
1/4 tsk sykur. Leyfði þessu að standa í smá stund 
eða þar til blandan var farin að freyða aðeins. 

Hitaði mjólkina í potti þannig að hún var orðin volg
en suðan ekki komin upp. Tók svo fram hrærivélina
setti þar í sykurinn, mjólkina, smjörið, eggið og saltið.

Hellti svo gerblöndunni út í líka.

Notaði svo þeytarann til að blanda þessu öllu vel 
saman. Bætti svo 4 dl af hveiti smátt og smátt 
út í skálina. 

Skipti svo um áhald og setti deigkrókinn á og bætti
restinni af hveitinu út í, eins og áður smátt og smátt
á meðan deigið hnoðaðist.

Úr varð þetta fallega deig sem ég leyfði að hefast
í rúma klukkustund.

Tók svo sirka hnefastóra bita af deiginu og 
flatti út í um það bil 25-30 cm hring (eða eitthvað
sem líktist hring í það minnsta). Smurði svo með
beikonsmurosti og notaði pizzahníf til að skera
í sex álíka stóra geira. 

Skar skinkuna í bita og dreifði hæfilega mörgum
bita á hvern geira. 

Rúllaði hverjum geira svo upp (byrjaði á breiða 
endanum) og beygði örlítið þannig að horn 
mynduðust. Kom þeim svo fyrir á ofnplötu og 
leyfði þeim að jafna sig í um korter áður en 
þau fóru inn í ofninn. 

Skellti þeim svo inn í 180°C heitan ofn í 15 mínútur
og út komu þessi líka ágætu skinkuhorn - svona
fyrir utan að sum þeirra urðu aðeins dekkri en ég 
hefði viljað þar sem ég gleymdi mér aðeins ;-)

Mæli alveg með þessum. Einföld, tiltölulega fljótleg og alltaf jafn góð. Tilvalin hvort sem er í útileguna, nesti eða bókaklúbbinn :-)

Meira síðar. 

Ummæli